Færsluflokkur: Menning og listir
31.7.2008 | 10:40
Laugavegur - Vígvöllur
Ýmislegt hefur verið sagt um Listaháskólann við Laugaveg. Nú síðast kvartar Atli Heimir tónskáld í fréttablaðinu í morgun yfir stíl- og smekkleysu götunnar. Í tilefni af því set ég hérna inn grein sem ég skrifaði í AT (Tímarit Arkitekta) í vor um Laugaveginn og fjallaði einmitt um skilin á milli arkitektúrs og borgarskipulags, en þau skil gleymast oft. Einstök hús eru eins og tónverk, hönnuð af einstaklingi eða hóp einstaklinga með sameiginleg markmið, en um borg gilda önnur lögmál. Vonandi verður greinin einhverjum til gagns.
Því ber að halda til haga að undirritaður er einn af höfundum tillögunnar sem hlaut 2.verðlaun í samkeppni um hús Listaháskólans.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2007 | 20:38
Óheppileg mynd
Það er skelfilega óheppilegt sjónarhornið sem mbl sýnir af Sundlaug Kópavogs með þessari frétt, ég sé ekki betur en að það sýni fyrst og fremst viðbygginguna sem tekin var af Högnu fyrirvaralaust með ruddalegum hætti. En með því með var höfundarrétti hennar og gildi hönnunar gefið langt nef.
Sérstaklega er þetta neyðarlegt fyrir mbl, þar sem hún kom inn á þetta mál í þakkaræðu sinni í kvöld, sem einu opinberu byggingunni sem hún hefði komið að á Íslandi, en hana hefði hún ekki fengið að klára.
Legg ég til að mbl finni betri mynd með fréttinni, svo höfuðið sé nú ekki bitið af skömminni.
______________
21:12 Þakka mbl snör viðbrögð.
![]() |
Högna Sigurðardóttir hlaut heiðursverðlaun Íslensku sjónlistarverðlaunanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt 22.9.2007 kl. 08:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.5.2007 | 22:16
Að predika fyrir kórnum - Menningarstefna í mannvirkjagerð
Fékk í dag frá Menntamálaráðuneytinu senda heim til mín, sem arkitekt, stefnu íslenskra stjórnvalda (alla vega næstu 4 daga) í byggingalist. Stefnan er unnin af dugnaði af góðu fólki og er því og íslenskum stjórnvöldum mikill sómi af verkinu. Hvet ég alla áhugasama um byggingarlist til að kynna sér ritið. Óskandi er að komandi íslensk stjórnvöld, hvar í flokki sem þau standa láti ekki tímasetningu útgáfunnar lita mat sitt á henni, því þetta er gott plagg.
sjá: http://menntamalaraduneyti.is/nyrit/nr/4059
Ég verð nú samt að játa að það að senda þetta arkitektum er nú dálítið eins og að predika fyrir kórnum. Ég treysti því að eintök hafi einnig verið send heim til stjórnenda allra ríkisstofnanna, yfirmanna framkvæmdarsýslu ríkisins, ríkisendurskoðanda ásamt deildarstjórum og ráðuneytisstjórum allrar ráðuneyta - það er fólkið sem á að lesa þetta og vinna með þetta. Ef svo ólíklega vill til að það hafi misfarist, þá verður væntanlega leyst úr því í snarhasti.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2007 | 22:07
Áhrif hagstæðra orkuaðstæðna íslendinga á vistvænismat bygginga
Við Björn Marteinsson hlutum styrk í dag frá Umhverfis- og Orkusjóði Orkuveitu Reykjavíkur til rannsókna á vistvænimati bygginga á Íslandi. Það er algjör grundvöllur þess að skapa raunverulega vistvænar byggingar á Íslandi, að skilja hvaða þættir menga við gerð og rekstur þeirra. Við getum ekki tekið blint upp lausnir erlendis frá (nú hljóma ég eins og Jón Sigurðsson í sjónvarpsauglýsingu) þar sem orkuþátturinn - stærsti einstaki þátturinn í vistvæni - er jafn sérstakur hér og raun ber vitni.
Hér fyrir neðan er verkefnislýsingin eins og hún fylgdi umsókninni.
Allar athugasemdir og ábendingar varðandi verkefnið eru vel þegnar:
Vistvæni (sustainability) bygginga næst með samþáttun tveggja þátta: Vistvæni í efnisnotkun og vistvænna hönnunarþátta (design strategies). Varðandi efnisnotkun er horft til endurnýtanleika efna, framleiðsluaðferða, hráefna, líftíma og flutningskostnaðar. Bæði er horft á orkunotkun og hráefnanotkun í því mati. Vistvænir hönnunarþættir eru víðtækar útfærslur í hönnun sem stuðla að því að lámarka orkunotkun, bæði á byggingartíma og líftíma, hámarka efnisnýtingu og líftíma og síðast en ekki síst, vinna með umhverfisþáttum við að ná áðurgreindum markmiðum.
Miklar og víðtækar rannsóknir hafa verið stundaðar, bæði vestan hafs og austan til að þróa vistvænar byggingarvörur og hönnunarþætti, og má rekja amk. 40 ár aftur í tímann. Þessar aðferðir og efni eru farin að rata inn í íslenska hönnun, þótt í litlu mæli sé. Það er hinsvegar ljóst að íslenskar aðstæður eiga fátt sameiginlegt með þeim aðstæðum sem finnast, hvort sem er á meginlandi Evrópu eða í Bandaríkjunum. Stærsti einstaki þátturinn er orkan. Þar sem olíu eða kolum er brennt til orkuvinnslu, verður orkuþátturinn ríkjandi í öllu mati á vistvæni húsa, og getur réttlætt mikinn vistvænan tilkostnað í byggingu hússins, sé litið á líftímann í heild (Life Cycle Analysis method). Ísland hefur þá sérstöðu að nánast öll orka til húshitunar er fengin með endurnýtanlegum orkugjöfum og vistvænn stofnkostnaður er lágur. Það er því ástæða til að skoða hvort íslenskar byggingar teljist sjálfkrafa vistvænar vegna tegundar orkunotkunar, eða hvort meira þurfi til. Í þessu samhengi er sérstaklega áhugavert að skoða áhrif langra flutningsleiða til landsins á notkun flutningsorku sem hluta af heildarorkunotkun vegna byggingar.
Markmið þessa verkefnis skiptum við í tvo hluta: Að varpa ljósi, allmennt séð, á áhrif orkuaðstæðna á vistvæni bygginga á Íslandi. Hinsvegar, að staðfæra og kortleggja vistvænar hönnunaraðferðir fyrir íslenskar aðstæður. Báðir verkefnishlutar eru unnir samsíða; meistaranemi í verkfræði mun skoða orkusamanburðinn en arkitektanemi hönnunaraðferðirnar;
1.Metin verða jákvæð áhrif íslenskrar orkuframleiðslu á orkuþátt Life Cycle analysis (LCA) útreikninga fyrir íslenskt húsnæði og neikvæð áhrif aðflutnings byggingarefna til Íslands á LCA útreikningana hinsvegar. Leitast verður við að fá almennar niðurstöður, sem hægt er svo að beita til að skilja samspil þessara þátta við ákvarðanatöku um vistvæn markmið. T.d. hvaða áhrif 50% aukning í einangrun húsnæðis, með aðfluttum einangrunarefnum, hefur raunverulega á LCA byggingar á íslandi. Að hversu miklu marki vegur orkusparnaðurinn á móti fórnarkostnaði við aðflutning einangrunarefna?
2.Teknar verða saman og kortlagðar þær hönnunaraðferðir sem þróaðar hafa verið og þær flokkaðar s.kv. markmiðum og forsendum verkefnisins. Samhliða Þegar fyrsta hluta er lokið verður hægt að meta þær hönnunaraðferðir sem fyrir liggja og hafna þeim, staðfæra eða samþykkja óbreyttar. Samhliða því mati þarf svo að skoða niðurstöður álagsrannsóknanna, og meta að hvaða marki þessar hönnunaraðferðir bregðast við íslenskum veðuraðstæðum og hvort ástæða sé til að þróa séríslenskar hönnunaraðferðir til að bregðast við þessum aðstæðum.
Niðurstöðurnar eru nauðsynlegur hlekkur í því að staðfæra erlendar aðferðir á íslenskar aðstæður; og eru nauðsynleg viðbót í kennslu í báðum háskólunum og ennfremur nauðsynlegar þeim aðilum sem sækja menntun sína erlendis. r munu nýtast í kennslu í báðum háskólunum. Niðurstöður verða birtar sem yfirlitsrit um aðferðir til hönnunar vistvænna bygginga á Íslandi. Í síðari verkefnum væri áhugavert að skoða álag á Íslenskar byggingar, meta hvaða veðurfarsþættir valda mestri áraun á byggingarefni og áhrif þessa á orkunotkun og niðurbrot efna.
Menning og listir | Breytt 22.9.2007 kl. 08:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2007 | 10:10
Arkitektúr fáfræðinnar í Austurstræti
Það hefur verið merkilegt að fylgjast með umræðunni í kjölfar brunans í Austurstæti fyrir viku. Borgarstjóri vill fá byggingarnar aftur - en ekki rekstraraðilana en Hrafn Gunnlaugsson og fleiri kalla eftir "glæsilegu" háhýsi.
Eru þetta einu kostirnir? Höfum við bara val á milli alls eða einskis? Er skipulagshugsunin og skilningur á borgargerð á Íslandi svo dapur að valkostirnir eru annarsvegar að fylgja í blindni því borgarlandslagi sem fortíðin gaf okkur eða að engar reglur eða velsæmi gildi, heldur ríkji fjármagnið eitt?
Áhugi Borgarstjóra á endurreisn gamla Landsréttarhússins (Pravda) er efni í dálitið merkilega vangaveltu. Menningarlega var þetta hús löngu dautt; Formlega séð var húsið augnstungið og kvistbætt og fátt eftir sem minnti á uppruna þess annað en smæð þess. Efnislega voru eftir eitt eldstæði og nokkrar spýtur. Við bætist að bruni þess var alger og því engar minjar eftir til að vernda eða viðhalda. Engu að síður spretta stuðningsmenn endurbyggingar/eftirhermu upp úr hverju skúmaskoti eins og slíkt sé algerlega rökrétt ferli. Á sama tíma samþykkja Borgaryfirvöld steinþegjandi og hljóðalaust niðurrif húsa við Laugaveg og belgmikla verslunarklumpa í staðinn. Er það sem danir byggðu merkilegra en það sem íslendingar byggðu? Meir að segja þegar ekkert er eftir af því danska? Þarna stendur eftir auð lóð og menningararfleifð sem er töpuð og er búin að vera töpuð lengi. Brunar, ásamt fjármagni og tækniframförum, eru áhrifamestu endurnýjunaröfl borga. Engum er greiði gerður með að reisa eftirlíkingu af gamla húsinu þarna.
Er þá bara 60 hæða turninn eftir sem möguleiki?
Borgir eru samtal milli kynslóða, stétta og hugmynda og málfræði þeirra samræðna eru þær skipulagsreglur sem gilda á hverjum tíma (því tungumál þróast jú líka). Það er í gegnum hefðir, menningu og virðingu fyrir þessu tungumáli sem við finnum lausn á því hvað eigi að gerast á þessum reit. Með því að skoða og skilja borgina og hvert við viljum að hún þróist þá er ekkert vandamál að svara því hvað eigi að rísa á þessari lóð. Valkostirnir eru ekki bara 2; allt eða ekkert. Skipulags- og borgarfræði hafa öll þau tæki og tól sem þarf til að ramma in kröfur um hvað sé æskilegt að rísi á þessum stað. Þar vinna menn úr samhenginu við nálæga byggð, með hliðsjón af því sem er og því sem verður, flétta þar inn kröfum um skjól og sól sem og kröfum m.a. Borgarstjóra um nýtingu. Þessi ákvarðanataka rammar svo inn þá uppbyggingu sem þarna getur átt sér stað.
Bruninn hefði getað komið á verri tíma, því heildarendurskoðun á sér stað um hvað Lækjartorg eigi að verða og endurnýjun á þessari lóð getur skoðast í samhengi við það. Lagaleg og praktísk atriði um gildandi skipulag, bætur og samninga við núverandi eigendur eru smáatriði sem auðsótt er að leysa, eins og spilasalsmálið í Mjóddinni sýndi. 50-100 ár af röngu húsi á þessum reit er það ekki.
P.s.
Stórkostlegt var að sjá Stöð 2 hlaupa 1.apríl nokkuð seint, þann 24. s.l. í hádegisfréttum.
http://veftivi.visir.is/veftivi/main.do?treeId=19001&progId=31907
Undir fyrirsögninni "Háhýsi í stað gömlu húsanna í miðbænum" er sagt að:
"Arkitektar og skipulagsfræðingar kasta nú á milli sín margskonar hugmyndum í þessum efnum.." og með sýnd photoshop unnin mynd sem fréttastofunni ku að hafa borist þennan morgun. Myndin sýnir 3.flokks 22 hæða skrifstofubyggingu sem hefur verið troðið á lóðina og grínið kórónað með bílastæðum á Lækjartorgi.
Það kann að vera að Stöð 2 vilji með þessu æsa upp í umræðu menn eins og mig - og þá hefur það tekist. Satt að segja vona ég það, því hinn valkosturinn; að nokkrum manni detti í hug að þetta sé alvöru tillaga, frá fagmanni, um það sem koma eigi ber vott um slíka blindni á skipulag og arkitektúr að viðkomandi þarf á hjálp að halda sökum fagurfræðilegrar blindu. Myndin er augljóslega gerð sem innanbúðagrín einhverstaðar og hefur af hrekk verið send á Stöð 2.
Hitt sem er áhugavert og styður vanþekkingarkenninguna er sú hugmynd að nú sitji arkitektar og skipulagsfræðingar sveittir við að teikna tillögur af risavöxnum nýbyggingum og kasti þeim á milli sín eins og eitthvað frímúrarafélag sem hafi eitthvað um þetta að segja. Ja gott væri ef satt væri.
Staðreyndin er sú að arkitektar hafa annað að gera en að teikna hús sem enginn vill að þeir teikni, né heldur erum við mikið í því að senda hönnunartillögur okkar á milli. Það er hinsvegar nokkuð um það að í þessu fagi séu fagbrandarar eins og í öðrum fögum, þeir eru hinsvegar oft á myndrænu formi. Það að sjónvarpsstöð skuli ekki bera skyn á myndrænan brandara er áhyggjuefni.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 16:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2007 | 17:47
Krossgötur - Þétting byggðar
Bendi öllum áhugamönnum um þéttingu byggðar á þætti Hjálmars Sveinssonar um málefnið sem verið hafa s.l. laugardaga á Rás 1.
Hver ber ábyrgðin á útliti Reykjavíkur?